Skautaþing 2. apríl 2016 - seinna fundarboð
- Details
- Fréttir 18.03.16
Í samræmi við 6. grein laga ÍSS, er hér með boðað til 18. þings Skautasambands Íslands.
Þingið verður haldið laugardaginn 2. apríl í fundarsal E í íþróttamiðstöðinni í Laugardal að Engjavegi 6, 104 Reykjavík og hefst kl. 11:00.
Dagskrá þingsins er samkvæmt 8. grein laga ÍSS.
F.h. Skautasambands Íslands
Margrét Jamchi Ólafsdóttir
Formaður ÍSS
Vetrarmót ÍSS 2016 lokið
- Details
- Fréttir 13.03.16
Spennan var mikil í Unglingaflokki A. Kristín Valdís Örnólfsdóttir frá SR, sem var fimmta eftir stutt prógram setti talsverða pressu á efstu stúlkurnar í dag þegar hún skilaði mjög góðu frjálsu prógrammi og endaði með 94.48 stig. Agnes Dís Brynjarsdóttir frá SB, sem var þriðja eftir fyrri keppnisdag, náði sér ekki á strik í dag og endaði í fimmta sæti með 87.98 stig.
Þuríður Björg Björgvinsdóttir SR skilaði mjög góðu prógrammi í dag og endaði með 95.15 stig og setti því mjög mikla pressu á Emilíu Rós Ómarsdóttur SA, sem skautaði síðust í dag því hún var efst eftir að hafa sett stigamet í stuttu prógrammi í gær.
Emilía lét pressuna ekki trufla sig og skautaði mjög vel í dag og endaði með 100.22 stig og trónar því í fyrsta sætinu á öllum mótum vetrarins. Glæsilegur árangur hjá þessari ungu skautakonu.
Eva Dögg Sæmundsdóttir SB, sem var í 4ja sæti eftir fyrri keppnisdag, náði sér ekki á strik í dag og endaði í sjötta sæti með 81.93 stig. Gaman er að segja frá því að Margrét Sól Torfadóttir SB setti persónulegt met á mótinu og skilaði viðmiðum ÍSS í frjálsa prógrammi og endaði í fjórða sæti með 90.46 og það á afmælisdaginn sinn:)
Sigurvegari í Stúlknaflokki A varð Marta María Jóhannsdóttir frá Skautafélagi Akureyrar með 77.97 stig og hefur hún, eins og Emilía Rós, sigrað í sínum flokki á öllum ÍSS mótum í vetur. Það hafa stöllurnar Rebekka Rós Ómarsdóttir í 12 ára og yngri A, Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir í 10 ára og yngri A og Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir í 8 ára og yngri A einnig afrekað. Það er því óhætt að segja að Skautafélagi Akueyrar hafi gengið vel að tryggja sér fyrsta sætið í A flokkum í vetur.
Vetrarmót ÍSS 2016 - fyrri keppnisdegi lokið
- Details
- Fréttir 12.03.16
Vetrarmót ÍSS hófst í dag í Egilshöll. Mótið fer mjög vel af stað og luku 5 flokkar keppni í dag: 8, 10 og 12 ára og yngri B, Stúlknaflokkur B og Unglingaflokkur B. Sjá úrslit.
Í Unglingaflokki gerði Emilía Rós Ómarsdóttir frá Skautafélagi Akureyrar (SA) sér lítið fyrir og setti stigamet í stuttu prógrammi en hún fékk 38.91 stig. Hún sló þar með stigamet sem Vala Rún B. Magnúsdóttir átti síðan á Bikarmóti 2014 37.08 stig. Emilía Rós hefur staðið sig frábærlega vel á mótum ÍSS í vetur og hefur sigrað öll mótin. Hún ætlar greinilega ekkert að gefa eftir á síðasta ÍSS móti vetrarins og byrjar vel. Ekki langt undan í öðru sæti eftir stutt prógram er Þuríður Björg Björgvinsdóttir frá Skautafélagi Reykjavíkur (SR) með 37.12 stig, en hún sló einnig met Völu frá 2014 og setti persónlegt stigamet í dag. Agnes Dís Brynjarsdóttir frá Skautafélaginu Birninum (SB) fylgir fast á eftir í þriðja sæti með 36.00 stig. Einnig má nefna að Eva Dögg Sæmundsdóttir frá SB átti mjög góðan dag og setti persónulegt stigamet í stutta prógramminu og er aðeins 0.42 stigum á eftir Agnesi Dís.
Í Stúlknaflokki A eru aðeins 0.21 stig sem skilja að fyrsta, annað og þriðja sætið eftir keppni í stuttu prógrammi! Ásdís Arna Fen Bergsveinsdóttir er efst með 27.66 stig, Aldís Kara Bergsdóttir fylgir fast á eftir með 27.55 stig og Marta María Jóhannsdóttir í þriðja sæti með 27.45 stig. Þær eru allar frá Skautafélagi Akureyrar.
Búist er við harðri keppni í frjálsu prógrammi og verður því morgundagurinn mjög spennandi! Við hvetjum alla til að mæta og hvetja okkar bestu listskautara til dáða. Aðgangur er ókeypis.